144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta frumvarp munu auka heildarneyslu. Ef markmiðið er einfaldlega að draga úr neyslu held ég ekki að þetta frumvarp sé til bóta, ég segi það bara hér og nú eins og ég sagði í ræðu minni og kemur reyndar fram í greinargerð frumvarpsins sjálfs. Ég held hins vegar að úr neikvæðum afleiðingum þeirrar neyslu megi draga með því að bæta áfengismenninguna. Og áfengismenningin afmarkast af lagalegu umhverfi út af fleiri þáttum en því hvort fólki sé leyft að gera eitthvað, hvort það megi kaupa það á þessum eða hinum tíma og jafnvel að ákveðnu marki á hvaða verði það fæst. Verðið virðist reyndar, ég verð að segja eins og er, samkvæmt mínum heimildum vera helsta vopnið, a.m.k. til skemmri tíma, til að takmarka neyslu með árangursríkum hætti.

Ég lít ekki á það sem höfuðmarkmið að minnka neyslu heldur að minnka skaðlegar afleiðingar neyslunnar. Þær eru misjafnar eftir því hvernig áfengis er neytt. Það er munur á því að drekka hálfan lítra af vodka og tíu bjóra þótt það sé sama áfengismagn vegna þess að maður drekkur ekki tíu bjóra á sama tíma og maður drekkur vodka. Það er eðlismunur á því hvernig vandamálin brjótast út eftir því hvernig neyslan á sér stað. (Forseti hringir.) Þess vegna gef ég miklu meira fyrir að ræða um neikvæðar afleiðingar neyslunnar (Forseti hringir.) en einfaldlega magnið sem neytt er.