144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði mikinn áhuga á því að fá eintak af þeirri umfjöllun sem hv. þingmaður nefndi hér í lokin, ég vil skoða öll gögn sem þetta varðar. Ég bað um gögn hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni áðan og hef farið yfir sumt af því, það er þess vegna sem ég nefni Bretland til dæmis. Ég hef reyndar ekki getað farið yfir allt frá því þessi umræða hófst enda erum við hér bæði í umræðu og á sama tíma að reyna að læra heima. Ég vil endilega fá afrit af þeim gögnum ef hv. þingmaður er viljugur til að láta mig hafa þau.

Hv. þingmaður spyr hverju sé verið að breyta. Í fyrsta lagi — þetta kann kannski að hljóma svolítið kaldhæðnislega — er verið að minnka sýnileika. Ef maður labbar niður Austurstræti sér maður vínbúð og maður sér fullt af áfengi og helling af sterku. Maður sér fullt af fólki með helling af áfengi að kaupa helling af áfengi og ganga út með helling af áfengi.

Þetta sér maður ekki í Frakklandi, í Belgíu, í Kanada eða í Finnlandi ef út í það er farið — jú, maður sér þetta reyndar pínulítið í Finnlandi, þeir eru með ríki fyrir sterk vín og í Manitoba líka, en þar drekka allir bjór, það drekkur enginn sterkt vín þar. Þeir drekka hins vegar bjór og mikið af honum. En alla vega, þetta breytir áfengismenningunni sjálfri eða gefur okkur tækifæri til þess, ef við nýtum tækifærið og bjóðum samtímis (Forseti hringir.) upp á auknar forvarnir og betri meðferðarúrræði.