144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði af djúpri þekkingu á viðfangsefni þessarar umræðu. Yfirþyrmandi skelfing, dóp, hætta — þetta voru orðin sem sátu eftir í huga mér eftir þessa þróttmiklu ræðu sem hv. þingmaður flutti. Mér fannst hún vera eins og brýning og hvatning til manna eins og mín og margra annarra sem hafa stundum í gáskafullum dansi í gegnum lífið kannski umgengist Bakkus af léttúð sem ef til vill hefur af og til verið úr hófi fram. Mér fannst ræða hans vera ein samfelld varnarræða gegn efni frumvarpsins. Þess vegna varð ég mjög hissa, og velti því fyrir mér hvort ég hefði heyrt rangt, að þegar hv. þingmaður hafði flutt þessa umvöndunarræðu kom hann að niðurstöðu síns máls, sem var sú að hann hefði ekki gert upp hug sinn. Ég tel að sérhver sæmilega vel gefinn og viti borinn maður sem hlustaði málefnalega á þessa vel fluttu ræðu gæti ekki hafa skriplað nema að einni niðurstöðu; að vera á móti frumvarpinu.

Þess vegna varð ég svo hissa á því sem hv. þingmaður sagði og vildi biðja hann um að skýra það út fyrir mér. Heyrði ég rétt, flutti hann þessa miklu ræðu gegn böli alkóhólsins en hefur samt ekki gert upp við sig hvernig hann ætlar að taka á málinu?

Í annan stað. Hv. þingmaður nefndi þrjú atriði sérstaklega og þriðja atriðið sem hann tiltók undir lokin var að menn höfðu gert athugasemdir við það að afgreiðslufólk sem mundi afgreiða áfengi væri 18 ára, en mætti hins vegar ekki selja nema fólki sem væri orðið tvítugt. Og þá datt upp úr hv. þingmanni: Ef kerfinu yrði breytt fyndist honum vel koma til greina að sett yrðu sérstök lög um að enginn mætti afgreiða í matvörubúðum nema þeir sem væru orðnir 20. Er það í sjálfu sér ekki nóg til þess að vera á móti frumvarpinu? Eða heyrði ég líka rangt hjá hv. þingmanni þegar hann fór með þá rullu?