144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér fannst merkast í ræðu hv. þingmanns var að hann lýsti því yfir að hann tæki sönsum. Ég vildi að það gilti um fleiri starfsfélaga okkar, þá væri líf okkar í þessum sal miklu auðveldara.

Ég lít reyndar svo á að ég sé líka í hópi þeirra sem af og til geta tekið sönsum. Og eins og hv. þingmaður legg ég mig fram um að skoða málin. Hvernig geri ég það? Ég hlusta á menn eins og hann halda málefnalega ræðu. Ég kom til umræðunnar tiltölulega opinn en ég verð að viðurkenna að ég er aðeins að lokast undir ræðu hv. þingmanns því að hann var svo sannfærandi í umvöndunum sínum gegn málinu, (Gripið fram í.) sem hann þó sjálfur hefur ekki tekið afstöðu til.

Ef ég má gefa hv. þingmanni ráð þegar hann er að skoða málin, af því að hann getur tekið sönsum, þá ætti hann kannski að hlusta dálítið meira á sjálfan sig, því að hann er ansi sannfærandi.

Herra forseti. Að lokum er það alveg nóg til þess að ráðast af hörku gegn frumvarpinu ef hv. þingmaður ætlar að taka þátt í að samþykkja mál sem á síðan að leiða til þess að banna öllum frá 18 til tvítugs að vinna í verslunum, matvöruverslunum, sem eiga að selja þessa vöru. (Forseti hringir.) Það er út af fyrir sig alveg nóg til að láta nótt (Forseti hringir.) sem nemur í þessu máli. Það er eitthvað sem við munum aldrei taka þátt í. — Aðför að unga fólkinu.