144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það bara afleit hugmynd og þá verður henni væntanlega kastað öfugri út. Ég sagði einfaldlega að ég væri reiðubúinn að skoða hana. Ég skammast mín ekki fyrir að skoða nokkurn skapaðan hlut, sama hversu illur hann kann að virðast vera í fyrstu. Ég stæri mig af því viðhorfi.

Hvað varðar að ég hafi talað gegn málinu þá misskilur hv. þingmaður aftur nálgun okkar pírata, hvernig við nálgumst lausnir á vandamálum. Það að eitthvað sé skaðlegt þýðir ekki sjálfkrafa að það eigi að vera bannað, að eitthvað sé skaðlegt þýðir ekki endilega að tiltekin lausn virki. Það er ekki endilega samhengi þar á milli. Það að einhver sé vondur þýðir ekki að maður eigi að berja hann, það að eitthvað sé slæmt þýðir ekki að maður eigi að banna það. Heimurinn er flóknari en það.

Ég var ekki að tala á móti frumvarpinu nema einstaka þáttum sem mér finnst vera þess virði að skoða. Ég kom með eina hugmynd, kannski er hún afleit. Ég kem með fullt af afleitum hugmyndum á hverjum einasta degi og mun halda áfram að gera það. Sumar þeirra virka. Stundum eru tíu hugmyndir af hundrað betri en níu af tíu.