144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að það kemur fyrir að hagnaðurinn sé einkavæddur en kostnaðurinn ríkisvæddur. Það er eitthvað sem við ættum að þekkja frekar vel úr bankakerfinu frá hinu tiltölulega nýliðna hruni. Og það er vandamál að sumir þættir samfélagsins séu svona.

Telur hv. þingmaður ekki að hægt sé að koma til móts við þetta einmitt með því að gera eins og lagt er til í frumvarpinu, að hækka hlutfall þess sem fer í sjóðinn — ég er búinn að gleyma hvað hann heitir (Gripið fram í: Lýðheilsusjóður.) — sem fer í lýðheilsusjóð úr 1% í 5%? Þetta er sambærilegt við breytingartillögu sem Steingrímur J. Sigfússon hv. þm. lagði fram árið 1988 þegar lögleiðing bjórsins átti sér stað, en þá lagði hann til að aukið, og sambærilegt, fjármagn yrði sett í forvarnir. Ég hefði talið slíkt mjög til bóta á þeim tíma. Mér finnst mjög gott að hlutfallið sé hækkað úr 1% í 5% í þessu frumvarpi. Telur hv. þingmaður ekki að það geti vegið upp á móti því sem hann hefur áhyggjur af?