144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurning mín var nákvæmlega þessi: Af hverju erum við að breyta hlutum til þess að þurfa svo að fara í mótvægisaðgerðir? Af hverju sleppum við ekki breytingunni og losnum við mótvægisaðgerðirnar? Þar með ætla ég þó að segja að hvað varðar 1% og 5 % er það því miður borgað af ríkinu í báðum tilfellum. Það er borgað af neyslunni, tekið sem hlutfall af skatti, það er svo í báðum tilfellum í þessu frumvarpi líka og þar af leiðandi er hægt að gera það sjálfstætt með því að taka hluta af því áfengisgjaldi sem við tökum í dag, auka framlagið í lýðheilsusjóð úr 1% í 5%, og ég væri hlynntur því. Það væri full ástæða til að fylgja því máli mjög vel eftir.

Þegar maður tekur þetta með tapið og hvernig hagnaðurinn er einkavæddur og tapið er ríkisvætt getum við skoðað það í tengslum við umræðu um almenningssamgöngur. Þegar sveitarfélögin taka yfir almenningssamgöngur er verið að reyna að koma þeim á, t.d. á Suðurnesjunum. Það er ein gríðarlega góð akstursleið á því svæði sem er frá flugstöðinni til Reykjavíkur. Á hún að vera inni eða á hún að vera utan við? Sveitarstjórnarmenn hafa barist fyrir því að hún væri inni af því að þá geta þeir fjármagnað aksturinn frá Sandgerði til Grindavíkur eða á ákveðnum leiðum sem eru óhagkvæmar. Þarna er dæmi um að menn sláist um að láta einkafyrirtækin fá ákveðinn hluta sem hægt að græða á en síðan verður ríkið að bera uppi leiðir sem eru óhagkvæmar og mikið tap á. Ég nefndi einnig netkerfið. Mér finnst svolítið verið að gera það hér líka. Í frumvarpinu er verið að taka þessi dæmi, og er það það sem við viljum?

Grundvallargagnrýni mín felst í því að ég skil ekki þessa breytingu, til hvers er hún, fyrir hvern, af hverju? Allar skýringarnar um byggðamál og allt það eru til þess að réttlæta það að verslunin taki við af ríkinu. Og ég tel enga ástæðu til þess með þessa neysluvöru frekar en að við viljum hafa ákveðið form í kringum lyfjasölu o.s.frv., þó að það séu einkaaðilar þar.

Auðvitað væri hægt að gera þessar breytingar. Ég kom því ekki að í ræðu minni (Forseti hringir.) að ég held ekki að það verði nein kúvending við þetta frumvarp. Lífið fer ekki á annan endann á Íslandi, það er ekki þannig, ég er ekki með neinn hræðsluáróður. (Forseti hringir.) Þetta er bara fullkomlega óþarft.