144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við teljum að um áfengi eigi að gilda fullkomið frelsi og að hver og einn eigi að taka upplýsta ákvörðun og þetta sé eingöngu ákvörðun hvers einstaklings af hverju setjum við þá tímamörk? Af hverju má ekki selja áfengi í sjoppum? Af hverju má ekki selja áfengi hér og þar, þar sem maður gæti staðið á horninu og haldið á bjórkassanum, farið niður í bæ í tengslum við skólaballið og selt áfengi? Af hverju ekki, ef þetta er upplýst ákvörðun hvers og eins? Ef þetta er bara spurning um að taka afstöðu, ætla ég eða ætla ég ekki? Við höfum aldrei lifað í þannig samfélagi. Við höfum búið til sameiginleg viðmið og reglur um ýmsa umgjörð í samfélaginu; útivistartíma, umferðarlög, hvað má, hvað má ekki, þú mátt ekki keyra druslu vegna þess að það veldur ákveðinni hættu fyrir aðra, það að halda víni að ungu fólki eða hverjum sem er getur leitt af sér einhverja neikvæða þætti o.s.frv. Við lifum í reglusamfélagi og þannig verður það og á að vera. Þess vegna segi ég: Af hverju erum við að búa okkur til erfiðleika?

Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að hér yrði einokun, þ.e. það yrði samþjöppun. Það verða stórir og sterkir aðilar sem munu ráða þessu. Litlu búðirnar fara í dag í Bónus til að kaupa vörur til að geta keppt á markaðnum vegna þess að birgjar selja þeim ekki á sama verði og Bónus, þær kaupa vörur hjá Bónus vegna þess að þær fá ekki sama heildsöluverð annars staðar. Þetta mun þjappast saman. Hverjir eru milliliðirnir og hverjir eru hagsmunirnir í því og hvar liggur ábyrgðin? Ástæðan fyrir því að við erum að þessu er sú að við berum ákveðna ábyrgð og við verðum að sinna eftirlitinu, við verðum að taka afleiðingunum. Skrifuð hefur verið mastersritgerð þar sem kostnaður við afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu í samfélaginu er metinn upp á 50–60 milljarða á ári.

Er til þess vinnandi að reyna að hindra þá skaðsemi? Hvað þarf þá til? Ég sagði, sem er alveg hárrétt, að við getum ekki farið fram úr vilja fólksins. Það var það sem gerðist t.d. með íþróttahreyfinguna. Almenn viðhorf sem voru í gildi breyttust og þá fór þetta að virka. Ég spyr bara: (Forseti hringir.) Af hverju er verið að reyna að fara í hina áttina hér?