144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka samflokksmanni mínum, hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, fyrir ágætisræðu. Hér fór hann mikinn í ýmiss konar tölfræði frá hinum ólíku menningarheimum og kom líka inn á kjarnann í þessu máli. Þeir eru að tala um verslun annars vegar og lýðheilsu hins vegar og að einhverju marki mætast þessi atriði.

Í ræðu hér áðan fór ég yfir starfsemi ÁTVR og ætla með leyfi forseta að lesa beint upp úr frumvarpinu á bls. 5:

„Starfsemi ÁTVR sækir stoð í lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011. Markmið þeirra laga eru að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis.“

Það er mín trú að verslunin geti tekist á við þessa samfélagslegu ábyrgð og komið með okkur í að stuðla hér að bættri lýðheilsu.

Þegar við förum að taka hér til tölfræði úr ólíkum menningarheimum — Bandaríkin voru mikið undir í upptalningu — þar sem er ólíkt gildismat, blasir sú staðreynd við á Íslandi að fjöldi áfengisútsölustaða hefur þrefaldast frá 1987 á sama tíma og unglingadrykkja hefur farið minnkandi. Þeim sem neyta áfengis í fyrsta sinn hefur fækkað um 32% í 10. bekk. Ég vil spyrja hv. þingmann: Eigum við að hunsa þessa tölfræði algerlega?