144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:09]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. samflokksmanni mínum þessa fyrirspurn en ég vil ekki taka undir það að þetta séu ólíkir menningarhópar. Ég var að vitna hér til Bandaríkjanna. Ég held að það sé margt líkt með okkur og Bandaríkjamönnum.

Ég held ég hafi oftar vísað til kannana á Norðurlöndunum, í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, og ég vil ekki hunsa þá tölfræði. Við þurfum ekki alltaf að vera að finna upp hjólið. Mannskepnan er ótrúlega lík hvar sem er í heiminum og þegar reynsla annarra, kannanir sem aðrir hafa gert, bendir öll í sömu átt þá get ég ekki annað en hlustað. Þegar það fer saman við mína sannfæringu og mína reynslu get ég ekki annað en treyst því.

Ástandið er gott. Við erum á réttri leið og þess vegna væri það grátlegt ef við ætluðum að fara að kúvenda og fara einhvern veg sem við í raun þekkjum ekki. Það verður ekki aftur snúið. Það er allt of mikið í húfi, hvert 1%. Hver ein persóna sem við missum í vandamál er bara allt of dýrmæt. Allar hagtölur sýna að aukið aðgengi, aukin neysla, er bara minni hagvöxtur. Það er meiri hagvöxtur sem við þurfum. Við þurfum frekar meiri hagvöxt en minni.