144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að að því marki sem við höfum eitthvað til að byggja á hljóta upplýsingar og rannsóknir af þessu tagi að hafa eitthvert yfirfærslugildi á íslenskan veruleika þegar verið er að bera saman ekki ólíkari lönd en Norðurlönd.

Varðandi röksemdina um að þetta væri sérstaklega gott fyrir landsbyggðina þá staldraði ég líka við hana í frumvarpinu og fór að velta því betur fyrir mér og rifja upp ýmislegt, þar á meðal það sem mér finnst blasa við að í fyrsta lagi yrði þetta strax óhagstætt landsbyggðinni að því leyti til að flutningskostnaður vörunnar mundi væntanlega lenda á neytendunum þar frá því sem nú er og síðan gæti þetta líka orðið mikið álitamál við vissar aðstæður í litlum byggðum. Kannski eru aðstæður þar viðkvæmari en á stærri svæðum ef varningurinn er til sölu í almennri verslun á staðnum og kunningjatengslin „allir þekkja alla“ hugsanlega veikari staða til að framfylgja reglum um aldursmörk og annað því um líkt. Það gæti verið margt sem þyrfti að hyggja að (Forseti hringir.) þegar farið væri að velta fyrir sér áhrifum af þessari þróun á minni byggðir.