144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:20]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er margt að athuga og alveg þess virði að leggja vinnu í það. Mín sannfæring er sú að þetta sé nokkuð ljóst. Talandi um framandi lönd og að við séum að vitna í þau, eins og ég hef nefnt eru félagasamtökin SÁÁ að glíma við þessi vandamál, landlæknir og velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Það er alveg sama hvaða fagaðila við vitnum í, það er alls staðar sama niðurstaðan: Aukið aðgengi þýðir aukin neysla.

Ég veit það bara með sjálfan mig að ef það væri bjór við hliðina á kornflexinu mundi ég sjálfsagt drekka (Forseti hringir.) einhverjum bjórunum meira. Ég skal alveg viðurkenna það.