144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:23]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef ekki farið í sjálfstæðar rannsóknir á þessu máli eins og hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins lýsti í ræðu sinni. En ég treysti fagaðilum, landlækni, velferðarnefnd Norðurlandaráðs og kemur fram í frumvarpinu að flutningsmenn þess vilja setja aukið fjármagn í forvarnir. Af hverju? Jú, það hlýtur að vera eitthvað sem hvíslar að þeim að neyslan gæti aukist. Það er eitthvað sem segir mér það að flutningsmenn frumvarpsins séu aðeins smeykir.

Varðandi auglýsingar get ég alveg tekið undir það að við þurfum að taka á þeim málum. Það eru duldar auglýsingar í gangi, við skulum þá taka á því. Tökum á vandamálunum. Við þurfum ekki endilega að kúvenda kerfinu þó að það séu einhverjir gallar á því í dag. Ég hvet til þess. Allar samanburðartölur, opinberar og óopinberar, beinast allar að því hvað við stöndum vel að vígi hér á Íslandi bæði varðandi drykkju unglinga og fullorðinna þannig að ég skil ekki af hverju við þurfum endilega að fara að breyta þessu. Af hverju þurfum við að fara að láta stórverslanirnar ná þessum markaði og hafa hagnaðinn út úr þessu og svo á samfélagið að sitja uppi með vandamálin?