144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að reyna að útskýra, við erum að segja að kerfið sé óhagkvæmt. Það er hægt að fara aðra leið með sömu umgjörð um söluna. Það er ekkert verið að rýmka umgjörðina eitt eða neitt. Þetta er enn við hliðina á sömu verslununum og inni í sömu verslununum þannig að það er verið að breyta umgjörðinni til að skapa hagræði svo að hægt sé að vinna á þeim áfengisvanda sem er til staðar í dag. Við höfum aldrei farið í grafgötur með það að áfengi er vandamál í dag og aðsóknin hjá SÁÁ verður sífellt meiri. Á sama tíma eru vínbúðirnar, sem eiga að sjá um þetta, að fjölga útsölustöðum og lengja opnunartímann.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það hafi verið rangt skref hjá vínbúðunum að opna uppi á Flúðum, hvort algert ófremdarástand sé á Flúðum og hvort það hafi versnað þegar afgreiðslutíminn var lengdur. Finnst honum það vera ríkisins, ríkisstofnunar, að ákveða hvort sú verslun var opnuð í Reykholti eða á Flúðum, að velja þar á milli? Og af hverju hafa þeir í Reykholti ekki sömu möguleika til að stofna sína vínbúð?