144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

neysluviðmið.

[13:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær bárust okkur fréttir af því að komið hefði í ljós að fjármálaráðuneytið hefði lagt til grundvallar, við útreikning sinn á afleiðingum hækkunar virðisaukaskatts á matvæli, þá forsendu að matarkostnaður einstaklings væri 248 kr. á hverja máltíð. Við þessar fréttir kemur tvennt til greina. Annað er að mistök hafi orðið sem hljóti að kalla á að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um hækkun á virðisaukaskatti á matvælum verði endurskoðaðar eða þá hitt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi náð slíkum árangri í sparinnkaupum að þeir skuldi okkur öllum hinum námskeið í því hvernig eigi að láta enda ná saman með matarkostnað upp á 248 kr. fyrir einstakling á hverja máltíð.

Þar sem ég geri ekki ráð fyrir því að hið seinna sé uppi á teningnum hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé efni til þess, í ljósi þessarar fréttar, að endurskoða frá grunni þessi áform um hækkun á virðisaukaskatti á mat, vegna þess að þetta er ekki eina forsendan sem ekki stenst. Það er líka gert ráð fyrir því að til þess að þetta komi þokkalega út fyrir fólk þurfi það að neyta svo og svo mikils af sykruðum, óhollum matvælum og því meira sem það neytir af óhollustu þeim mun meiri yrði ávinningur þess af breytingunni.

Er ekki full ástæða til að horfa á þessi áform frá grunni, hæstv. ráðherra? Er ekki líka ástæða til þess að létta álögum af innfluttum matvælum til að skapa ódýrari neyslukosti fyrir almennt launafólk með því að draga úr álögum á holl innflutt matvæli þannig að fólk ætti val um að komast vel af með matarreikninginn þó að ég ætlist nú kannski ekki til þess að við náum almennt að komast niður í 248 kr. fyrir máltíð á mann?