144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

neysluviðmið.

[13:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel nokkuð augljóst að þingið sé akkúrat í þeirri stöðu að fara yfir þær forsendur sem voru fyrir þessum breytingum. Ég ítreka að breytingarnar í heild sinni áttu að skila almenningi í landinu umtalsverðum ávinningi og jafnframt lækkun á vísitölu í landinu, sem er auðvitað grundvallarbreyting frá þeim áformum sem voru hér fyrir nokkrum árum þegar eingöngu var talað um hækkun á virðisaukaskatti með tilheyrandi hækkun á vísitölu. Það er allt önnur umræða.

Við framsóknarmenn höfum lagt á það ríka áherslu að þær breytingar sem verði á virðisaukaskattskerfinu muni skila tilætluðum árangri, þ.e. að þær verði ekki til hækkunar á vísitölu og helsti til lækkunar hennar, og jafnframt að það sé tryggt að þeir hópar í samfélaginu sem standa hvað verst komi í það minnsta jafn vel út úr þessu eða í heldur betri stöðu en ella.

Vaðandi grænmetið þá hef ég ekki tíma til að ræða það en þar er ekki allt sem sýnist og hefur aldrei verið þrátt fyrir yfirlýsingar manna undanfarin ár.