144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

LungA-skólinn.

[13:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Ég átti fund með forstöðumönnum skólans fyrir nokkrum mánuðum þar sem þeir kynntu mér þetta verkefni. Ég er sammála hv. þingmanni hvað varðar að þarna er um að ræða mjög áhugaverða tilraun, áhugaverða nýjung sem gæti orðið til gagns. Sú nálgun sem þarna er og sú reynsla sem er til dæmis sótt til annarra Norðurlandaþjóða hvað varðar lýðháskólana held ég að eigi alveg erindi til okkar hér.

Það er þó svo að ég hef horft til þess að miða við það fjármagn sem við öfum núna til framhaldsskólastigsins og hef því farið mjög varlega í allar nýjungar. Það er þannig og það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að á undanförnum árum hafði framlagið til framhaldsskóla, þ.e. reksturs framhaldsskólastigsins, verið dregið saman um 2 milljarða. Á sama tíma fjölgaði mjög nemendum í framhaldsskólastiginu og við erum að vinna okkur til baka hvað það varðar svo að við getum haldið úti framhaldsskólakerfinu. Ég skal játa það að ég hef farið mjög varlega í að gefa grænt ljós á einhverjar nýjungar sem ég gæti síðan illa staðið undir að fjármagna, þó að það sé mjög freistandi.

Ég verð að segja hvað varðar þann skóla sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega að ég tel ástæðu fyrir okkur að skoða vel í fyrsta lagi hvernig þessi viðbót geti passað inn í okkar kerfi og þá hvernig við getum fjármagnað hana ef til þess kæmi.

Ég gerði forstöðumönnum skólans á sínum tíma grein fyrir þeirri stöðu sem uppi væri með framhaldsskólann, að hann væri fjársveltur og erfitt væri að ráðast í ný verkefni, meira að segja sem mér litist mjög vel á og fyndist vera góður grundvöllur fyrir.