144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

höfundaréttur og hljóðbækur.

[13:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í nýlegri grein hæstvirts einstaklings Kristínar Sigurðardóttur kom fram sjónarmið er varðar hljóðbækur og höfundarétt þeim tengdum. Kristín Sigurðardóttir vildi sum sé njóta hljóðbóka, var jafnvel reiðubúin til þess að borga fyrir það og hefur sóst eftir því að komast í hljóðbækur en hún getur það ekki vegna þess að það eru ekki heimildir til þess að lána bækur á Hljóðbókasafninu út til fólks nema það hafi einhvers konar fötlun eða aðrar forsendur fyrir því að hafa aðgang að þessu safni.

Sömuleiðis er annað tilfelli þar sem hæstvirtur ungur maður, Kristján Hrannar, bjó til sína eigin hljóðbók og fór að lesa inn Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Þá kom í ljós að hann var að brjóta lög. Hann sóttist líka eftir leyfi hjá Forlaginu, vegna þess að þýðingin er enn þá undir höfundaréttarvernd þrátt fyrir að höfundurinn hafi verið látinn í 72 ár, og í stað þess að fá svar um að það kostaði svo og svo mikið eða það þyrfti að fara eftir hinum og þessum leiðum var honum einfaldlega bannað að dreifa þessu, það væri reyndar strangt til tekið, með leyfi forseta, „stranglega bannað“.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann telji eðlilegt að höfundaréttarlög sem eru hönnuð til þess að hvetja til listsköpunar og dreifingar á list og menningu takmarki listsköpun og framleiðslu og dreifingu á listum og menningu með þessum hætti.