144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

höfundaréttur og hljóðbækur.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti sennilega meiri tíma til að ræða allra síðustu fullyrðingu hæstv. ráðherra, ég ætla ekki að fara frekar út í hana vegna þess að ég er ósammála henni. Hér er um að ræða hljóðbókagerð úr öðrum verkum sem er mjög sambærilegt því að þýða bók. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra trúi því að menn eigi að geta þýtt bækur þrátt fyrir að þær séu höfundaréttarvarðar. Því hefði ég talið eðlilegt að menn gætu búið til hljóðbækur úr bókum, hvort sem þær eru íslenskar þýðingar eða upprunalegt verk á upprunalegu máli.

Mér heyrist hæstv. ráðherra vera sammála mér. Því langar mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að með endurskoðun höfundaréttarlaga og nýju fyrirkomulagi þeirra, óháð hugmyndum okkar um endanlega útfærslu á gjaldtöku og því hvernig listamenn eiga að sjá fyrir sér, sé það að minnsta kosti mögulegt fyrir einstaklinga, án þess að þeir séu með fötlun af einhverju tagi, að framleiða hljóðbækur, dreifa eftir einhverjum leiðum, kaupa og njóta hljóðbóka.