144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

framtíð umhverfisráðuneytisins.

[14:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get byrjað á játningum eins og hv. þingmaður og sagt að ég hafi alltaf haft ákveðnar mætur á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og ræðumennsku hans. En oft er það nú þannig að þegar hann fer í pontu og mærir pólitíska andstæðinga sína þá er það yfirleitt gert í einhverjum öðrum tilgangi.

Mér datt reyndar ekki í hug að svo lítið væri að gera hjá stjórnarandstöðunni á Íslandi að menn þyrftu að grafa upp 15, 16 mánaða yfirlýsingar nýrra ráðherra um áhuga þeirra á að skoða mál ofan í kjölinn frá grunni, að það yrði tilefni til óundirbúinna fyrirspurna núna á þessum tíma.

En að því gefnu að við ræðum þetta þyrftum við kannski að fá aðeins lengri tíma að ræða um umhverfismálin sem sannarlega eru þverfagleg og ættu eins og jafnréttismál og byggðamál að vera unnin í hverju ráðuneyti út af fyrir sig. Og í hverjum einasta málaflokki ættu menn á sama tíma að velta fyrir sér með hvaða hætti við getum komið umhverfishugsuninni inn í okkar hegðun. Fyrr verðum við ekki farin að haga okkur almennilega hvað varðar umhverfismálin. Það hefur verið skoðun mín býsna lengi. Við sjáum til dæmis hvernig við erum með stjórn fiskveiða, þar sem við notum nýtingarreglur til að tryggja vernd og sjálfbærni og verndun á svæðum, algerlega til fyrirmyndar.

Hvað það varðar að það sé sérstakt fyrirbrigði að einn og sami ráðherrann gegni embætti á nokkrum stöðum má benda á að færeyski sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann er einnig umhverfisráðherra. Hingað kom yfirmaður umhverfismála hjá OECD sem var umhverfisráðherra Nýja-Sjálands til níu ára og er talinn nokkuð merkur maður í umhverfisfræðum. Hann var iðulega í þremur til fjórum ef (Forseti hringir.) ekki fimm öðrum málaflokkum á sama tíma meðan hann sat. Þegar hann sagði mér það hætti ég að kveinka mér undan því að mikið (Forseti hringir.) væri að gera, sem það vissulega er.

Ég næ ekki að svara aðalspurningu hv. þingmanns. Ég get gert það í lokin.