144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

framtíð umhverfisráðuneytisins.

[14:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem nú svolítið dapur í ræðustól. Ég heyri að hæstv. ráðherra efast um fölskvaleysi tilfinninga minna gagnvart honum og Framsóknarflokknum.

Hins vegar er þetta ekkert gamanmál. Hæstv. ráðherra var gagnrýndur mjög harkalega af umhverfisverndarsinnum og öðrum sem til dæmis unna góðri stjórnsýslu. Þetta getur falið í sér hagsmunaárekstur, alveg sama hversu vandaður einstaklingur sinnir þessu. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri verið að skoða hvar mætti koma verkefnum ráðuneytisins fyrir. Sá hæstv. ráðherra sem núna er umhverfisráðherra sagði að hann væri að skoða hvort ráðuneytið væri óþarft. Menn þurfa að komast að niðurstöðu. Það getur vel verið að tímarnir séu eins og áður var í landbúnaðarráðuneytinu, þar ferðuðust menn á hraða snigilsins, a.m.k. fer hæstv. ráðherra mjög hægt yfir í þessu máli.

Það var annað sem hékk á þessu líka. Þetta átti að vera tímabundið ástand þangað til Framsóknarflokkurinn fengi fimmta ráðherrann og hæstv. forsætisráðherra sagði að það ætti að vera kona. Þá get ég sagt: Ég hef fulla trú (Forseti hringir.) á konunum í Framsóknarflokknum. Af hverju er þeim ekki hleypt inn í ríkisstjórnina? (Forseti hringir.) Kannski hæstv. ráðherra svari því meðfram því sem hann svarar hinni upphaflegu spurningu minni með fullri vinsemd (Forseti hringir.) og virðingu.