144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér fannst spaugilegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra sem kom hér upp og kvartaði yfir endurteknu efni í þingsal því að öllum er ljóst að hv. málshefjandi, sem ég þakka fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni, þurfti að bíða í marga mánuði eftir að fá þessa sérstöku umræðu á dagskrá. Enn þá spaugilegra fannst mér þegar hæstv. forsætisráðherra fór sjálfur með endurtekið efni, því að hann fór að sjálfsögðu aftur í hlutverk sitt sem formaður stjórnarandstöðuflokks en ekki í hlutverk sitt sem hæstv. forsætisráðherra og fór að tala um gömlu ríkisstjórnina, sem var honum miklu hugleiknari en nýja ríkisstjórnin.

Við skulum endilega rifja þetta upp. Árið 2012 voru 217 milljónir í húsafriðunarsjóði sem samkvæmt lögum um menningararf á að fara með úthlutun styrkja til húsafriðunar með faglegum hætti. Sá sjóður var skorinn niður í 45 milljónir. Það er raunar lagt til að það verði 56 heilar í ár, en enn þá eru 133,6 milljónir á liðnum með langa nafnið: Græna hagkerfið og vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Ríkisendurskoðun sá þó sérstaka ástæðu til þess að gagnrýna það því að mjög vandséð er samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hvernig nákvæmlega græna hagkerfið tengist vernd sögulegra og menningartengdra byggða. Röksemdir forsætisráðuneytis um að þetta séu vistvæn verkefni falla hreint ekki að þeirri skilgreiningu sem við eigum af græna hagkerfinu og hæstv. forsætisráðherra ætlar að koma með hér í síðari ræðu. Ég bíð spennt að heyra hana.

Ég reikna með að það sé sú skilgreining sem við samþykktum hér öll, og örugglega hæstv. forsætisráðherra líka því að hún var samþykkt mótatkvæðalaust, þegar við samþykktum samþykkta þingsályktun um græna hagkerfið. Auðvitað hlýtur maður að spyrja sig: Ef okkur er umhugað um að efla menningararfinn, eins og hæstv. forsætisráðherra er og mér líka, af hverju eru þessir fjármunir þá ekki fluttir, það væri hreinlegra, í húsafriðunarsjóð eða fornminjasjóð? Hvernig nákvæmlega á liðurinn með græna hagkerfið að tengjast þessum málum?

Virðulegi forseti. Mér finnst allt þetta mál (Forseti hringir.) bera vott um reiðareksstefnu í þessum málum í forsætisráðuneytinu (Forseti hringir.) og ég lýsi áhyggjum af því.