144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um þrjá fjárlagaliði, þ.e. atvinnuuppbyggingu, græna hagkerfið, eins og það var skilgreint áður, og græna hagkerfið, þ.e. nýi liðurinn. Það sem var gert var að hæstv. forsætisráðherra notaði 175 milljónir af fjárlagaliðnum um atvinnuuppbyggingu og 30 milljónir af liðnum Græna hagkerfið samkvæmt gömlu skilgreiningunni í ýmis verkefni. Húsfriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands útveguðu valkostina og hæstv. ráðherra sá um úthlutun.

Rétt tæpur helmingur þeirra styrkja sem hæstv. ráðherra úthlutaði fór til verkefna í Norðausturkjördæmi, kjördæmi hæstv. ráðherra. Styrkirnir voru ekki auglýstir til umsóknar, að sögn vegna þess að of skammur tími væri til þess innan fjárlagaársins.

Virðulegi forseti. Hvenær má taka afslátt af góðum vinnubrögðum og hvenær má spyrja dálítið alvarlegra spurninga?

Í þessu máli er vísað til þingsályktunar um græna hagkerfið en því er þar lýst, með leyfi forseta:

„… sem grænt hagkerfi, með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni.“

Styrkjum var áður úthlutað til dæmis til eftirfarandi verkefna: Virðisauki jarðvarma, mörkun vinnumarkaðsstefnu, jarðvarmaklasi, rafsæstrengur, stuðningur við millilandaflug, kynning á íslenskum sjávarafurðum og því um líkt. En samanburðurinn við þau verkefni sem ráðherra úthlutaði til er áhugaverður. Það voru önnur verkefni eins og varðveisla báts, verndarsvæði í miðbæ, hús leikfélags, steinsteypt fjárrétt og þess háttar. Munurinn á þeim verkefnum sem var styrktur er greinilegur og mjög áhugaverður.

Var það ætlun þingsins, þegar þessir fjárlagaliðir voru búnir til, að skilgreining á styrktum verkefnum væri svona mismunandi?