144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:31]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur hið svokallaða græna hagkerfi talsvert borið á góma en mér sýnist að sú áætlun sem lögð var fram hafi verið sama marki brennd og margar aðrar áætlanir, hún er fyrst og fremst falleg orð á blaði en ekkert markvisst um hvað gera eigi í framtíðinni. Mér finnst þetta plagg vera nokkurs konar gluggaskreyting sem sett var fram, ef til vill til að ganga í augun á kjósendum, miklu frekar en raunverulegar og fjármagnaðar framkvæmdir.

Hér hefur verið vitnað talsvert í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í júní. Mig langar líka til að vitna í þá ágætu skýrslu, með leyfi forseta. Á bls. 17 í henni kemur fram, að sögn formanns verkefnastjórnar um eflingu græna hagkerfisins, að hvorki var hafin vinna við verkefni né hafði verið stofnað til kostnaðar vegna þeirra meðan umsjón þeirra var á forræði forsætisráðuneytis.

Þetta verkefni var því ekkert farið í gang. Ef ég má aftur í vitna í skýrsluna, nú í bls. 20, þá voru verkefni forsætisráðuneytisins færð til umhverfis- og auðlindaráðuneytis korteri fyrir kosningar 2013 þannig að þetta var allt í skötulíki. Menn vissu ekkert þá hvað þeir ætluðu að gera við þetta. Og ég endurtek að þetta var bara falleg fyrirsögn.

Mynduð var ný ríkisstjórn og vissulega hefur hún aðrar áherslur en sú fyrri. Hún vill meðal annars láta verkin tala. Ég tel að aðgerðir hæstv. forsætisráðherra hafi verið skynsamlegar og samkvæmt áformum í stjórnarsáttmála sem var gerður. Upp úr stendur að peningarnir fóru allir til þarfra verkefna og koma að góðu gagni til björgunar menningarverðmæta (Forseti hringir.) og til starfa á sviði menningararfs sem flokkast að mínu mati undir vistvæn eða græn störf.