144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir umræðuna sem hefur beðið ansi lengi eftir því að vera tekin hér á dagskrá. Ég vil eiginlega byrja á því að segja að hæstv. forsætisráðherra talaði um að við værum ósköp fúl yfir þessu öllu saman og óánægð með að þessir styrkir væru veittir og gætum ekki hugsað um að verkefnin sem fyrir valinu urðu fengju þessa peninga.

Þetta snýst ekkert um það, eins og hér hefur komið fram. Ég held að við berum öll hag gamalla húsa og annarra minja fyrir brjósti eins og mörg önnur mál. Þetta snýst um athugasemdir Ríkisendurskoðunar á verkferli sem forsætisráðuneytið mótmælir, reyndar mjög víða, og gerir ekkert með, getur ekki tekið undir þannig að það setur í rauninni ofan í við Ríkisendurskoðun sem á að vera hinn óháði aðili gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hér kemur meðal annars fram að þessu sé ráðstafað á þeim tíma sem það er gert og ekki eftir því sem Alþingi hafði samþykkt. Ríkisendurskoðun mótmælir og tekur ekki undir túlkun forsætisráðuneytis og bendir meðal annars á að þingsályktunartillaga og frumvarpstexti er lögskýringargagn. Við hljótum að byggja afstöðu okkar á því en það virðist forsætisráðuneytið ekki telja.

Ríkisendurskoðun vitnar líka í að vilji hafi verið til þess að gera þetta með þeim hætti sem lagt var upp með í því frumvarpi. Það er alveg rétt, það er ekki verið að leggja mat á verkefnavalið, eins og ég sagði í upphafi, heldur verið að gera athugasemdir við þá sem geta sótt um í lögbundna sjóði, það að þeir fái m.a. styrki hér.

Það sem situr eftir þegar maður les þessa skýrslu er fyrst og fremst það að forsætisráðuneytið er í rauninni að setja ofan í (Forseti hringir.) við Ríkisendurskoðun um það hvað telst eðlileg og góð stjórnsýsla og hvað ekki.