144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tímasetninguna ætti það að vera augljóst að ekki er hægt að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrr en sú skýrsla er komin út, þó að menn hafi vitað af því að verið væri að vinna slíka skýrslu samkvæmt beiðni frá þinginu. Ég sé að þrátt fyrir þá skýrslu og þrátt fyrir alla þessa umræðu og fyrirspurnir virðast enn þá vera verulega ranghugmyndir hjá mörgum þingmönnum um það hvernig þetta mál er vaxið.

Meginþorrinn af því fjármagni sem hér er um að ræða var sérstakur liður til atvinnuuppbyggingar sem síðasta ríkisstjórn kom á og ráðherrar í síðustu ríkisstjórn og ráðherranefnd síðustu ríkisstjórnar höfðu útdeilt úr í allar áttir. Þegar við komum að því gerðum við athugasemd við það eða töldum að þetta væru ekki góð vinnubrögð og höfðum frumkvæði að því að leggja til við þingið að liðurinn yrði lagður af. Dálítið af þessu fjármagni heyrir hins vegar undir liðinn um græna hagkerfið og þar virðast menn vera þeirrar skoðunar að ný ríkisstjórn eigi að fylgja skilgreiningu síðustu ríkisstjórnar á því hvað teljast góð verkefni fyrir græna hagkerfið. Við eigum með öðrum orðum að láta okkur það nægja að síðasta ríkisstjórn hafi sett orð á blað um það hvernig hún vilji skilgreina græna hagkerfið og vinna eftir því.

Í þessum styrkjum til græna hagkerfisins hafa menn verið að styðja við bakið á umhverfisvænum atvinnuskapandi verkefnum sem geta af sér enn meiri vinnu í framhaldinu, eða hvað er grænna en íslenskur torfbær? Hvernig er hægt að halda því fram að það falli ekki undir græna hagkerfið?

Þessi umræða er öll hin sérkennilegasta þegar meira að segja ráðherra úr fyrrverandi ríkisstjórn kemur hér upp og gagnrýnir úthlutun núverandi stjórnvalda sem þó tóku upp fagleg vinnubrögð sem ráðherrar í síðustu ríkisstjórn voru sérstaklega gagnrýndir fyrir að hafa ekki ástundað og lögðu síðan liðinn af.