144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

ummæli ráðherra í umræðum.

[14:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Ég byrjaði að segja það í ræðu minni áðan þegar hæstv. forsætisráðherra svaraði hér með hálfgerðum dónaskap fyrirspyrjendum sem hafa lengi beðið eftir svörum, og eru búnir að bíða, að hann teldi málið komið í þann farveg að hann þyrfti ekkert að ræða það neitt frekar.

Hið sama má segja um hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þetta er óeðlilegt á þessum eina vettvangi sem við höfum. Síðan er borin fram gagnrýni á fyrrverandi ráðherra. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra fari alltaf í þann gírinn að ef honum líkar ekki það sem hér er sagt er það vegna þess að síðasta ríkisstjórn var svo ómöguleg eða að hún gerði ekki eitthvað rétt. Það er eiginlega inntakið í því sem hann hefur gjarnan sagt á þingi og það sama á sér stað núna, hann fer í rauninni gegn því sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) og túlkar það með þeim hætti sem honum hentar best.