144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Ég vil taka það fram í upphafi að með þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á efni laganna sem við þekkjum, nr. 35/2014. Einungis er um að ræða að frádráttarliðir 8. gr. laganna verði orðaðir skýrar en nú er. Lögfesting þessa frumvarps mun því ekki hafa áhrif á kostnað við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, en lögfesting þess er líkleg til að stuðla að færri ágreiningsmálum um frádráttarliði.

Við yfirferð á þeim fjölmörgu gögnum og upplýsingum sem leggja þarf til grundvallar á framkvæmd leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána samkvæmt lögunum sem ég hef nefnt hér nokkrum sinnum, nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, hefur komið í ljós að orðalag b- og c-liða 8. gr. laganna sem fjallar um frádráttarliði er óþarflega nákvæmt, einkum með tilliti til dagsetninga. Þannig má til dæmis halda því fram að túlka beri orðalag þeirra þröngri lögskýringu sem aftur leiðir til þess að sambærileg úrræði hljóti ekki sömu meðferð þegar kemur að því að ákvarða endanlega leiðréttingarfjárhæð.

Um töluverðar fjárhæðir er að ræða í nokkrum tilvikum sem samanlagt gætu haft áhrif á heildarkostnað við verkefnið ef niðurstaðan yrði sú í kærumeðferð að ekki væri talin nægilega skýr lagaheimild til að draga frá ákveðnar niðurfærslur. Rétt þykir því, virðulegur forseti, að bregðast við þessu sérstaklega með lagabreytingu þar sem mjög óeðlilegt þykir að réttarstaða þeirra heimila sem eins er ástatt fyrir verði með gjörólíkum hætti eftir því til dæmis hvort almenn skuldalækkunarúrræði einstakra lánastofnana í þágu skuldsettra heimila áttu sér stað fyrir eða eftir formlegan staðfestingardag samkomulags þess efnis.

Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði einföld breyting á 8. gr. laga nr. 35/2014 sem fjallar um frádráttarliði, eins og áður var nefnt, og að nýrri málsgrein verði bætt við ákvæðið í þeim tilgangi einum að taka af allan vafa um að samsvarandi skuldalækkunarúrræði leiði til samsvarandi frádráttar við ákvarðanir um leiðréttingu.

Virðulegur forseti. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við verkefnisstjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunarinnar, en í honum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóði og ríkisskattstjóra auk fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, mælist ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.