144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er umdeild skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar komin á dagskrá, að vísu út af tæknilegum agnúum. Ég get hins vegar ekki bælt niður þörf mína til að spyrja hæstv. ráðherra, sem er staðgengill fjármálaráðherra hér í umræðunni, ýmissa grundvallarspurninga varðandi þessi áform, skuldleiðréttingarnar. Þetta er gríðarlega fjárfrek aðgerð, 20 miljarðar á þessu ári, 20 á næsta og þarnæsta og á árinu þar á eftir, 80 milljarðar alls. Hæstv. innanríkisráðherra veit mætavel að það vantar til dæmis fjármuni í viðhald vega og uppbyggingu vega, það vantar fjármuni í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu. Það þarf að greiða niður opinberar skuldir.

Nú berast fregnir meðal annars af umsögn Seðlabankans þar sem Seðlabankinn segir að skuldastaða heimilanna, þrátt fyrir að þessar aðgerðir séu ekki hafnar, sé komin í jafnvægi og að ef aukið veðrými eykst í kjölfar þessara aðgerða muni heimilin væntanlega sækja aftur í þetta sama jafnvægi. Með öðrum orðum munu þau mjög líklega nýta veðrýmið til skuldsetningar, til þess að fjármagna ýmislegt sem blasir við í heimilisrekstrinum. Seðlabankinn er því í raun að segja að skuldastaðan hafi batnað það mikið að hún sé í jafnvægi og ekki sé þörf á þessum aðgerðum.

Umboðsmaður skuldara biður líka um minna fé vegna þess að skuldastaða heimilanna hefur batnað, án þess að aðgerðirnar séu hafnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að hætta einfaldlega við þetta og nota peningana í eitthvað skynsamlegra og þarfara fyrir heimilin í landinu, fyrir okkur öll?