144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður verðum seint sammála um þetta mál. Ég vona að við getum verið sammála um þá útfærslu sem hér er lögð til til þess að tryggja að ef kæra kemur til sé málið á góðum og eðlilegum stað.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um skuldaleiðréttinguna og þá vinnu sem í gangi er almennt erum við einfaldlega ósammála. Við í ríkisstjórninni teljum og höfum allan tímann talið að þetta sé mikilvægt og stórt réttlætismál, að það sé undanfari þess að við getum hafið öfluga uppbyggingu hér á landi. Ég er farin að hallast að því að það sé alveg sama hversu mörg andsvör ég tek við hv. þingmann um þetta, ég virði algjörlega skoðanir hans, ég veit að honum gengur gott eitt til og hann trúir því að aðrar leiðir væru betri. Þar erum við ekki sammála. Ég tel að þessi leið sé góð og ég tel að hún sé mikilvæg. Það er auðvitað ekki í boði að ganga til baka í því verkefni.