144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að það eigi að vera í boði vegna þess að mér finnst þetta gríðarlegar upphæðir sem um er að ræða. Mér finnst hafa komið vísbendingar og umsagnir sem gefa okkur tilefni til þess að endurskoða þetta mál, m.a. frá Seðlabanka Íslands sem segir að skuldastaða heimilanna sé núna í jafnvægi. Með öðrum orðum þarf ekki að hafa það miklar áhyggjur af skuldastöðu heimilanna að fara eigi í, algjörlega án fordæma, að ríkisvæða þessar skuldir að hluta, með 80 milljarða fjárútlátum úr ríkissjóði á tímum þegar þessa peninga þarf, og hæstv. innanríkisráðherra veit það vel, í aðra hluti. Þannig að já, við skulum vera ósammála um það.

En um hvað erum við þá ósammála? Erum við kannski ósammála um hlutverk ríkisins? Það er svolítið merkilegt. Mér finnst það vera hlutverk ríkisins að sjá til þess að vegir séu í lagi. Mér finnst það vera hlutverk ríkisins að sjá til þess að heilbrigðiskerfið sé í lagi. Mér finnst það vera hlutverk ríkisins að sjá til þess að menntakerfið sé í lagi, að löggæslan sé í lagi. Það eru ýmsir grunnþættir sem ríkið á að sinna. Það er ekki skylda ríkisins að greiða niður einkaskuldir. Erum við kannski ósammála hvað það varðar?

Telur hæstv. innanríkisráðherra að það sé hlutverk ríkisins að taka yfir einkaskuldir og greiða þær niður að hluta, jafnvel þegar þess þarf ekki? Og þurfum við þá kannski ekki aðeins að eiga sérstaka umræðu heldur mjög yfirgripsmikla umræðu um það hvort ríkið geti, fyrst þetta er ný skylda á herðum þess, séð um heilbrigðiskerfið, menntakerfið, vegakerfið og allt það sem þarf þessa fjármuni núna?