144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man eftir gagnrýni hv. þm. Árna Páls Árnason á þetta mál á sínum tíma og hann hafði sín rök fyrir því að í frumvarpinu væri ekki komið jafnt til móts við aðila. Hann taldi að að einhverju leyti væri um að ræða mismunun.

Það er ekki rétt skilið hjá hv. þingmanni að þessi breyting tengist því. Hún tengist ákveðnu fyrirkomulagi sem verið hefur á einstaka lánum sem hefur verið aðeins ólíkt eftir lánastofnunum. Eins og ég fór ítrekað yfir í ræðu minni er verið að skerpa á orðanna hljóðan í 8. gr. laganna þannig að tryggt sé að fari málin í kæruferli sé afdráttarlaust tekinn af allur vafi um að ekki skipti máli t.d. nákvæm tímasetning, hinn formlegi staðfestingartími vegna samkomulags í kringum þessi mál.

Ég held að þetta sé ekki rétt skilið hjá hv. þingmanni, en hann getur leiðrétt mig í því, að það hafi verið á þeim grundvelli sem hann gagnrýndi frumvarpið um skuldamálin sem afgreitt var hér fyrir nokkru síðan.