144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú held ég að hæstv. ráðherra verði að fá að fara fram fyrir í mælendaskrá og flytja aðra framsöguræðu, því að hér var hún að segja að breytingin sneri að lánum. Í frumvarpinu segir að breytingin snúi að því að tilteknar niðurfellingaraðgerðir þurfi að geta komið til frádráttar sem ekki falla undir sértæka skuldaaðlögun eða aðra þá þætti sem sérstaklega eru látnir koma til frádráttar í lögunum eins og þau standa. Það er það sem stendur í frumvarpinu.

Ég spyr þá bara: Hvað eru þetta mörg tilvik? Hversu mikið lækkar þetta? Hvað verða margir fyrir þessari lækkun núna? Hversu mörg eru þau tilvik þar sem fólk hefur fengið lækkun á skuldum sínum en hún fellur ekki undir samkomulag um sértæka skuldaaðlögun og núna á að draga hana frá? Hvað eru þetta mörg tilvik? Hvað er þetta há fjárhæð? Við þurfum að fá þær skýringar.