144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er nokkuð sérstakt, svo ekki verði meira sagt. Eins og komið hefur fram hér í andsvörum þá liggur ekki alveg ljóst fyrir hvað er nákvæmlega verið að reyna að ná utan um með frumvarpinu. Það segir sitt um hið merkilega heimsmet, skuldaleiðréttinguna miklu, að það þurfi að koma hingað inn með leiðréttingafrumvarp til að bregðast við gagnrýni sem kom var fram í umræðum um málið í vor.

Ég rakti ítarlega í máli mínu þegar þetta frumvarp var til umræðu fyrr í vor að sá vandi væri í því fólginn að fólk gæti verið í algerlega sambærilegri stöðu en fengið mismunandi úrlausn eftir því hvort skuldaúrlausn fólks hefði verið heimfærð undir ákvæði um sértæka skuldaaðlögun eða önnur skuldaúrræði sem voru formlega talin upp í lögunum. Þá var sagt að þetta væri ekki rétt. Nú er verið að koma með lagafrumvarp sem víkkar þetta út til annarrar almennrar lækkunar og niðurfellingar fasteignaveðkrafna á tilgreindu tímabili, allt frá 1. janúar 2008.

Ég spyr og hlýt að spyrja: Hver er skilgreiningin á almennri lækkun? Hversu margir þurfa að hafa fengið lækkun til að hún sé almenn lækkun? Þarf hún að hafa verið auglýst? Þarf hún að hafa staðið öllum til boða? Þarf hún að hafa verið auglýst í dagblöðum? Þarf hún að hafa verið greind í úrræðaskilmálum viðkomandi banka? Því er ekki svarað í frumvarpinu eða lögskýringargögnum.

Hér er haldið áfram með þá aðferð að afhenda fordæmalaust ákvörðunarvald um fjárhagsmálefni einstaklinga til framkvæmdarvaldsins. Eitt var að samþykkja hér lög í vor án þess að ákveða hver forsendubresturinn væri, án þess að ákveða hver leiðréttingarvísitalan yrði og láta það ráðast af heildarfjárhæð umsókna, en nú er verið að afhenda framkvæmdarvaldinu ákvörðunarvald um frádrátt án þess að það sé skýrt skilgreint hvaða aðgerðir eigi að koma til frádráttar. Þeir skilgreiningarþættir sem eru raktir eru allir teygjanlegir, þ.e. almenn niðurfelling, sem bankarnir hafa framkvæmt frá 1. janúar 2008, sambærileg úrræðum sem greind voru í lögunum og ekki telst til tekna samkvæmt tekjuskattslögum.

Það er líka verulegt umhugsunarefni líka hvort eðlilegt sé að koma hingað með frumvarp af þessum toga eftir að umsóknarferli er lokið. Hvað segir það um réttaröryggi þeirra sem sóttu um? Það frumvarp sem samþykkt var sem lög í vor er lögfræðilegur óskapnaður, fordæmalaus með öllu, um úthlutun 80 milljarða kr. úr ríkissjóði án efnislegra viðmiða um úthlutunina og án nokkurrar beinnar réttarreglu sem skapi skýran rétt. Með þessu frumvarpi er haldið áfram á þeirri braut.

Ég er satt að segja svolítið spenntur að sjá hversu mörgum verður synjað á þessum forsendum. Hver geta verið mótmæli þeirra? Hvað er verið að taka rétt af mörgum með þessari aðgerð? Hvað verða margir áfram í þeirri stöðu að hafa fengið úrlausn í sínum banka sem er algerlega sambærileg við þær úrlausnir sem veittar voru ýmsum öðrum sem fengu t.d. 110%-leiðina eða fóru í gegnum sértæka skuldaaðlögun? Það er vert að hafa í huga að 110%-leiðin var yfirleitt ekki miðuð við greiðslugetu. Henni var beitt mjög víða í bankakerfinu með ósamræmdum hætti, mjög snemma. Hversu mörg tilvik af því eiga að falla hér undir, hversu mörg ekki?

Það er ótrúlegt að sjá sjálfstæðismenn, sem hafa stundum talað eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé sérstakur gæsluflokkur réttarvörslu og einkaeignarréttar í landinu, flytja svona stjórnskipulegan óskapnað, fara svona með almannafé og ganga svona gegn grundvallarreglunum um réttarríki.

Það er líka verulegt umhugsunarefni hversu ríkt valdaframsal er að finna í frumvarpinu. Nú er ekki lengur viðmiðið fyrir hendi sem kærunefndin getur haft til að heimfæra lækkanir á skuldum undir einstakar lækkunaraðgerðir sem heita ákveðnu nafni, eins og 110%-leiðin og sérstök skuldaaðlögun, heldur fær hún þá leiðsögn að hún eigi líka að draga frá aðra almenna lækkun eða niðurfellingu. Eins og ég segi, fyrst hugtakið „almenn“ er ekki skilgreint í frumvarpinu þá erum við þegar komin í lögfræðilegar ógöngur. Mjög mörg tilvik voru um lækkun á forsendum 110%-leiðarinnar undir lok árs 2009 og í upphafi árs 2010, framan af án þess að þau úrræði hefðu verið formlega auglýst. Í einkum banka voru þau til dæmis auglýst en ekki í öðrum, en þó beittu margir af hinum bönkunum þessu tiltekna úrræði. Er það þá þannig að þeir sem fengu 110% lækkun hjá Arion banka, sem auglýsti úrræðið, fengu almenna lækkun en þeir sem fengu úrræði hjá Íslandsbanka eða Landsbankanum, sem var ekki auglýst formlega, fengu ekki almenna lækkun?

Virðulegi forseti. Hér er farið á ystu nöf gagnvart grundvallarreglum réttarríkisins um skýrleika lagaheimilda og um eðlilegar forsendur fjárúthlutana úr ríkissjóði. Vont var þetta mál í vor en að sjá núna hversu langt menn teygja sig til að reyna að koma hlutum saman er mikið áhyggjuefni. Fjöldi fólks mun ekki fá úrlausn. Með þessum lögfræðilega hrærigraut sem stjórnarflokkarnir hafa búið til verður illmögulegt fyrir fólk að átta sig á af hverju það fái ekki þann rétt sem það taldi sig eiga, af hverju það sé hlunnfarið. Það er enn opið að fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu fái algerlega ósambærilega meðferð. Það eru hin alvarlegu tíðindi fyrir þjóðina. Það eru alvarleg tíðindi fyrir fólk sem hefur bundið vonir við fagurgala formanna stjórnarflokkanna að aðgerðin standist ekki grundvallarviðmið um skýrleika réttarheimilda og lagaskýrleika til að hægt sé að ákvarða réttindi fólks.

Fé sem rennur í ríkissjóð er ekki einkaeign stjórnarflokka á hverjum tíma. Það er almannafé. Það er fengið með skattheimtu og því fé væri hægt að úthluta með öðrum hætti. Það felst ábyrgð í því að fara með það fé. Öll lagaumgjörð þessa máls lýsir ótrúlegu pólitísku klastri og algerum skorti á skýrum meginreglum. Það verður alvarlegur, dapurlegur minnisvarði um þessa ríkisstjórn.