144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar eins og ég var í vor, þegar stjórnarmeirihlutinn var á annarri skoðun og þrætti hér við mig dögum saman, að það væri mjög mikilvægt að sambærilegt fólk yrði látið vera í sambærilegri stöðu. Það var ekki afstaða stjórnarmeirihlutans þá. Nú er reynt að útfæra þetta til að láta þetta virka með þeim hætti.

Þá spyr ég hv. þingmann: Getur hann útskýrt fyrir mér hugtakið „önnur almenn lækkun“? Í dæminu sem ég tók áðan voru dæmi um það að 110%-leiðinni væri beitt í ýmsum fjármálastofnunum án þess að hún væri auglýst eða hún mörkuð sem almenn regla. Í einni fjármálastofnun var hún auglýst frekar snemma, Arion banka, þannig að það er fullkomlega mögulegt að skuldarar í fullkomlega sambærilegri stöðu hafi fengið 110% lækkun á nákvæmlega sama degi, annar þeirra í Arion banka, hinn í Íslandsbanka. Það er engin leið að halda því fram að beiting 110%-leiðarinnar í árslok 2009 af hálfu Íslandsbanka hafi verið almenn lækkun vegna þess að hún var ekki almennt í boði. Hún var ekki auglýst. Hún var ekki almenn.

Það er þessi lögfræðilegi óskapnaður, virðulegi forseti, sem ég geri athugasemdir við. Það er verið að gefa stjórnvöldum heimild til að úrskurða um réttindi fólks, um það hvort fólk eigi rétt til fjár úr opinberum sjóðum á grundvelli algjörlega óskýrra viðmiða án nokkurra leiðbeininga. Það er þessi subbugangur sem hefur einkennt þetta mál frá upphafi og virðist því miður ætla að fylgja því í gröfina.