144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til vinnunnar í nefndinni og yfirferðar yfir þetta mál. Vandamálið er bara það að eins og ég sé því stillt hér upp dugar það ekki. Það dugði ekki heldur í vor. Þá var hins vegar stjórnarmeirihlutinn algjörlega einbeittur í því að láta ólíkar reglur gilda um sambærileg tilvik. Hann barðist um á hæl og hnakka og skellti skollaeyrum við ítrekuðum viðvörunarorðum mínum í því efni.

Vandamálið er hins vegar að skilgreiningin „almenn lækkun“ er teygjanleg og það er ekki auðvelt að finna henni stað þannig að hún haldi.

Eins og ég rakti áðan er þetta hins vegar svolítið í samræmi við annað í þessu máli og það er áhyggjuefnið, það hversu frjálslega hefur verið farið með grundvallarreglur réttarríkisins í þessu máli frá upphafi til enda og hversu mjög gengið er á svig við hefðbundin viðhorf um skýrleika réttarheimilda, um fyrirsjáanleika, eins og í því að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli koma inn í þingið með frumvarp sem gefi honum opna heimild til að eyða 80 milljörðum úr ríkissjóði til að leiðrétta tjón sem hann á eftir að ákvarða í reglugerð hvað verður mikið. Það er ekki enn búið að ákveða það. Það er ekki enn búið að ákveða hver forsendubrestsvísitalan endanlega verður og þar af leiðandi hver hinn leiðrétti forsendubrestur er hjá hverjum og einum. Hefur nokkur maður nokkurn tímann heyrt um bætur á tjóni sem fela í sér gríðarleg útgjöld úr ríkissjóði til að bæta tjón án þess að menn séu búnir að ákveða hvert það er eða skilgreina tjónið? Þessi lausatök eru áhyggjuefnið, þau skapa skelfilegt fordæmi og skelfilegar væntingar gagnvart komandi kynslóðum. Fyrir flokka sem hafa áhuga á því að viðhalda íslenskri krónu með tilheyrandi sveiflu til langframa (Forseti hringir.) þýðir þetta að það er verið að búa til væntingar um niðurskurð (Forseti hringir.) úr forsendubresti í kjölfar (Forseti hringir.) hverrar einustu efnahagssveiflu héðan í frá.