144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum ekki flækja þetta með stórum tölum, við skulum bara taka einföld dæmi. Við getum tekið dæmi af stóreignamanni sem á 200 millj. kr. í hreinni eign og þénar 3 millj. kr. á mánuði og er bara í býsna góðum málum. Hann getur fengið leiðréttingu út úr þessum aðgerðum eins og það er kallað upp á 4 millj. kr. Það er kannski rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki ávísun í pósti, farið er í bankana og skuldabréfið hans lækkað, ef þingmanninum líkar betur sú lýsing.

Á hinn bóginn geturðu verið með ung hjón með fremur lágar tekjur sem keyptu á bóluárunum í þeim hverfum þar sem verðsveiflur hafa orðið hvað mestar. Þau stóðu allt í einu uppi með skuldir sem voru helmingi meiri en verðmæti íbúðarinnar sem þau höfðu keypt í upphafi, segjum 30 millj. kr. og fóru upp í 45 millj. kr. Þau voru lækkuð niður í 110% af þessu eignarverði, þ.e. 30 og eitthvað millj. kr. í skuldsetningu fyrir tekjulítið fólk og markaðsverð undir þeim fjárhæðum. En þetta unga fólk fær ekki neitt af því að 110%-leiðin er dregin frá. Hvernig hv. þingmaður getur fengið það til að koma heim og saman að það sé sanngjörn skuldaleiðrétting er vissulega ofvaxið mínum skilningi.