144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti nú von á því þegar ég sá fyrirsögnina á frumvarpinu, lagfæring á leiðréttingunni, að hér kæmi inn eitthvað af þeim málum sem rætt var um í tengslum við útfærsluna á þessari leiðréttingu, þ.e. hvað varðar leigjendur, forsendubrestinn hjá þeim hópi, Búsetahópinn, búseturéttaraðilana, jafnvel námsmennina. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hvort einhver umræða hafi átt sér stað um þessi mál, því að rætt var um að það kæmi síðar og yrði fylgt eftir í framhaldinu.

Í öðru lagi langar mig að heyra frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni hvort hann viti hvar leiðréttingin varðandi forsendubrestinn endi. Það byrjaði með 4,8%, fram kom í tillögunum á opnum fundi sem undirbjó leiðréttinguna að þetta yrðu 4%. Síðan var talan tekin út endanlega. Nú liggur fyrir fjöldi umsókna. Liggja fyrir svör um hver vænta megi að prósentan verði sem miðað verður við? Það væri gaman að heyra það.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja um eitt af þeim málum sem við ræddum mikið, sem er eitt af tíu atriðum í þingsályktunartillögunni, þ.e. upplýsingar frá Hagstofu Íslands þar sem gefnar voru mjög víðtækar heimildir til að safna upplýsingum, keyra saman upplýsingar frá lánafyrirtækjum og úr skattskýrslum og öðru slíku. Það er mikilvæg forsenda til að meta áhrif þessara leiðréttinga bæði fyrir og eftir. Hvað líður þeirri vinnu? Er einhver von til þess að við sjáum niðurstöðuna úr því? Ég hélt að hún mundi koma áður en menn færu í endanlega útfærslu á leiðréttingunni, að menn hefðu þær tölur sem hugsanlega ættu að vera forsendur hvað það varðar.

Ég kem að fleiri spurningum í síðara andsvari.