144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hvað liði aðgerðum í þágu leigjenda og þeirra sem eru í Búseta og námsmanna, væntanlega vegna námslána. Ég hef svo sem ekki upplýsingar um það. Ég veit þó til þess að í gangi er almenn endurskoðun á húsnæðislöggjöf um húsnæðismál. Mér skildist að þar yrði vikið að þeim málum.

Varðandi forsendubrestinn og nákvæma prósentutölu í honum þá held ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi lýst því ágætlega hvernig hann er reiknaður út. Búið er að ákveða heildarfjárhæðina í fjárlögum. Út frá því verða menn að reikna prósentuna sem kemur út úr því. Mér fannst hv. þingmaður lýsa þessu mjög myndrænt og ágætlega. Það er ekki hægt að ákveða eða vita fyrir víst hver sú prósenta er fyrr en útreikningar liggja fyrir.

Síðan var spurt um Hagstofuna og þær auknu heimildir sem hún fékk til þess að kanna fjárhagslega stöðu heimila fyrir og eftir þessar aðgerðir. Ég hef ekki upplýsingar um hvernig þeirri vinnu miðar.