144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held nú að þær tillögur sem varða húsnæðiskerfið horfi til framtíðar þannig að það er ekki leiðrétting á núverandi ástandi eins og það var kallað, réttlætismál og leiðrétting á forsendubresti. En sá forsendubrestur varð ekki síður hjá þeim sem voru með verðtryggða leigu og hafa þurft að sæta hækkunum, eins og Búsetar og Búmenn, þeir sem keyptu eignir á hjúkrunarheimilum, þeir hafa fengið gríðarlega hækkun á skuldum sínum og eru ekki með í þessum úrræðum. Ég veit ekki til þess að það séu neinar tillögur um að leiðrétta það. Þess vegna spyr ég.

Mig langar líka að spyrja varðandi réttlætið og höfuðstólslækkunina. Hvað með þær breytingar sem orðið hafa á forsendum sem varða hækkun á fasteignamati þar sem svæðisbundnar hækkanir hafa orðið? Það er bæði bundið við hverfi í Reykjavík og ákveðin sveitarfélög úti á landi. Það er vel yfir þeirri upphæð sem verið er að tala um að leiðrétta hér, sem er 18% verðbólga við hrunið.

Þarna er verið að tala um að bregðast við því sem bankarnir gerðu. Eitt af því sem bankarnir gerðu í hruninu eða eftir hrunið var að þeir gengu að vísu að ábyrgðum þar sem ábyrgðarmenn voru á lánum en hlífðu þeim sem lent gátu í vandræðum vegna ábyrgðanna. Þá voru felldar niður ábyrgðir hjá mörgum aðilum, t.d. fullorðnu fólki eða fólki sem er í skuldavanda. Hvað með þau atriði í sambandi við þessa leiðréttingu? Mun það verða dregið frá? Það er alveg klárt að það geta verið sömu aðilar sem sækja um leiðréttingu og þeir sem felldir hafa verið út sem ábyrgðarmenn á lánum annarra. Mér finnst það líka skipta máli, þetta er dæmi um aðgerðir sem bankarnir gripu til af fúsum og frjálsum vilja vegna þess að þeir vildu ekki bera fólk út á þeim tíma.

Í síðasta lagi er ein setning í frumvarpinu sem varðar skattfríðindin. Talað er um á bls. 2 að það gildi ekki um skuldir vegna bílasamninga sem ekki séu bundnar fasteignaveðum. Hvað er átt við með því? Er það (Forseti hringir.) þannig að það verði skattgreiðslur af (Forseti hringir.) lagfæringum á bílalánum, (Forseti hringir.) þ.e. þar (Forseti hringir.) sem niðurfellingar voru á skuldum? (Forseti hringir.)