144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Ég er ekki alveg viss um að ég fylgi hv. þingmanni í fyrstu spurningunni sem fjallaði væntanlega um lögmæti verðtryggðra lána og hugsanlegan réttindamissi ef menn tækju þessa skuldaleiðréttingu. Ég er ekki alveg viss um að ég geti svarað því nema ég skilji betur spurninguna.

Ég þarf að rifja upp um hvað annað var spurt. (BLG: Reikniformúlan.) Já, reikniformúlan, ég held að það hljóti að teljast sjálfsagt að birt verði hvernig reikniformúlan er fengin, þ.e. hvernig niðurstaðan er fengin í hverju tilfelli fyrir sig. Ég veit ekki hvernig það verður. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að það verði upplýst mjög ítarlega hvernig þetta dreifist niður á mismunandi tekju- og eignahópa til að menn geti skoðað það rækilega.