144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það sem verið er að gera með þessu frumvarpi er að stoppa í gat varðandi jafnræði eða sanngirni úthlutunarhluta þessa verkefnis ríkisstjórnarinnar. Peningarnir koma úr ríkissjóði en rétt skal vera rétt, það er bara hálf sagan. Ef menn segja að féð komi úr ríkissjóði þá er það rétt en hinn helmingurinn af sögunni er sá að þegar leiðréttingarfrumvarpið var samþykkt var samhliða samþykkt frumvarp um bankaskattinn. Bankaskatturinn var settur á árið 2010 með tvíþættu markmiði, annars vegar að ríkið mundi ná til baka fjármunum vegna þess skaða sem ríkissjóður varð fyrir vegna bankahrunsins. Hvert ætti að sækja þá peninga? Kannski helst til þeirra fjármálastofnana sem orsökuðu hrunið og þrotabúa bankanna sem hrundu. Aftur á móti voru þrotabúin á þeim tíma undanþegin bankaskattinum. Hitt markmiðið með bankaskattinum var að takmarka fjármálaóstöðugleika eða tryggja stöðugleika.

Það sem ríkisstjórnin gerði samhliða því að ætla að útdeila fé úr ríkissjóði — því vissulega er rétt að féð kemur úr ríkissjóði — var að tryggja að til væri fé. Því yrði náð með bankaskattinum sem var næstum því tuttugufaldaður ef ég man rétt og honum kastað yfir þrotabúin, þau fengu ekki lengur undanþágu frá bankaskattinum. Það hvernig verkefnið yrði fjármagnað í ríkissjóði var tryggt samhliða því hvernig ákveðið var að úthluta fénu úr ríkissjóði.

Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft er það bankakerfið sem borgar fyrir þetta og sér í lagi er féð sótt til þrotabúanna. Það er öll sagan. Það er ekki nóg að segja bara að þetta séu peningar úr ríkissjóði og óábyrgt að fara með þá á einhvern ákveðinn hátt. Það var hugsað fyrir því að sækja þennan pening þangað sem átti að sækja hann til að leiðrétta þann forsendubrest sem kemur fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt í vor.

Með þessu frumvarpi er verið að stoppa í gat á úthlutunarhluta verkefnisins, þ.e. hvernig á að úthluta fénu og tryggja að það sé gert á sanngjörnum forsendum.

Aftur á móti er ekki alveg ljóst með innheimtuna á skattinum. Innheimtan er ekki alveg örugg. Við þurfum að vera alveg heiðarleg með það. Þetta er skattur sem er innheimtur á hverju ári og verkefnið á að standa í fjögur ár. Þessi skattheimta er ekki örugg og það er ekki öruggt að peningarnir verði til staðar þannig að hægt verði að halda áfram að greiða út, svo því sé líka haldið til haga.

Það var alltaf ljóst, að minnsta kosti bentu margir á það í upphafi, að úthlutunarþáttur þessa verkefnis yrði erfiður, hann yrði alltaf umdeildur sem hann og er. Þess vegna erum við að ræða um þetta í þingsal í dag. Og stjórnarandstaðan — þegar ég segi stjórnarandstaðan þá á ég við Samfylkinguna og Vinstri græna — notar hvert tækifæri til að benda á það og réttilega.

En það er aftur á móti einn ákveðinn forsendubrestur, einn hópur sem ekki hefur verið hugsað nógu vel um, hvorki af síðustu ríkisstjórn né af þessari. Það er fólk með verðtryggð húsnæðislán sem margt bendir núna til að hafi verið ólöglega útfærð allt frá 2001. Nú eru í gangi dómsmál um þetta. Þetta fólk, margt hvert, er núna í þeirri stöðu að nauðungarsala á heimili þess getur farið fram. Þau heimili voru ekki tekin með í frumvarpi um frestun nauðungarsalna sem var samþykkt í upphafi þessa þings nema þau hefðu sótt um þessa leiðréttingu. Einhverjir sóttu ekki um leiðréttinguna og það getur verið af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þess, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á, að maður veit ekki hvert smáa letrið er. Er maður búinn að afsala sér einhverju með því að sækja um leiðréttingu? Ég spurði ítrekað um það og var sagt að svo væri ekki, en það gæti verið. Það er fullt af fólki í samfélaginu sem treystir því ekki að það afsali sér ekki einhverjum rétti ef það taki tilboðum ríkisstjórnarinnar um leiðréttingar og skuldaaðlaganir og slíkt. Það sáum við á síðasta kjörtímabili. Þeir sem sitja í stjórn núna voru duglegir að benda á það þá.

Þannig að þeir sem sóttu ekki um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar fá ekki stöðvun nauðungarsalna þrátt fyrir að í Hæstarétti muni falla endanlegur dómur um þetta, líklega á miðju næsta ári, kannski fyrri part ársins. EFTA-dómstóllinn hefur sagt að lögmæti verðtryggingarmála skuli ákveðið heima í héraði, þ.e. þau skulu ákveðin heima á Íslandi. Þeim dómi verður því ekki áfrýjað. Hæstiréttur tekur endanlega ákvörðun um lögmæti útfærslunnar, ekki verðtryggingarinnar sjálfrar, heldur útfærslu á verðtryggðum neytendalánum frá 2001. Það sem gerðist var að sett var þak á það hvað lánin mættu vera há til þess að falla undir neytendalán og þá féllu öll húsnæðislán undir það.

Við munum heyra á næstunni frá EFTA-dómstólnum þar sem hann mun gefa annað álit um það hvort útfærslan sé lögmæt. Við fáum það álit hjá EFTA-dómstólnum á næstunni og í október verður dómtekið mál sem HH er með gegn Íbúðalánasjóði.

Þetta er náttúrlega stóri forsendubresturinn. Maður hefði ætlað að það sem ríkisstjórn ætti að gera væri að framfylgja lögum og dómum í landinu og einbeita sér að því. Það er gott og góðra gjalda vert að lofa skuldaleiðréttingu og leiðin sem var farin til að fjármagna hana var góð, en ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, á að einbeita sér að því að tryggja að hér sé réttarríki, að tryggja að lögum og dómum sé framfylgt í landinu. Það hefur ekki verið gert.

Það hafa verið til heimildir til þess að fara af stað, allt síðasta kjörtímabil hefði ríkið getað ýtt undir og stuðlað að því, m.a. vegna laga um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, að dómsmál hefðu klárast, dómsmál sem varða réttarstöðu lántakenda gagnvart fjármálafyrirtækjum. Það var ekki gert. En sem betur fer eru samtök í þessu samfélagi, Hagsmunasamtök heimilanna, sem hafa virkilega staðið vörð um þetta atriði. Fólk er mismunandi ánægt með þessi samtök og segir að þau séu hagsmunasamtök sumra heimila og, já, það er rétt, sum málefni þeirra eru þannig vaxin. En réttarstaða heimilanna í landinu snertir stöðu allra heimila, þetta er réttargæsla fyrir öll heimili. Samtökin hafa farið af stað með þetta mál og það verður dæmt í því eftir áramót.

Ég ætla að vona að ríkisstjórnin setji meira púður í að tryggja réttarstöðu heimilanna, sýni meira af sér þegar kemur að því að tryggja hana, rétt eins og hún hefur sett gríðarlega mikið púður í að færa fé frá bankakerfinu og til þeirra sem urðu fyrir forsendubresti. Það er ein leið, góðra gjalda verð að mörgu leyti en hefur líka sína vankanta. En það má ekki sitja eftir að framkvæmdarvaldið geri allt sem það getur til að tryggja réttarstöðu lántakenda í landinu.