144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu mikið sem hefur staðið hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Ég vil samt sem áður koma hingað til að fara yfir nokkur atriði, bæði varðandi frumvarpið sjálft og ekki síður aðdraganda þess og þess sem á undan hefur komið.

Það var sagt áðan af þingmanni Framsóknarflokksins, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, að því hefði aldrei verið lofað í kosningabaráttunni að ekki yrðu dregnar frá þær aðgerðir sem áður hefði verið gripið til af hálfu fyrri ríkisstjórnar, þ.e. á síðasta kjörtímabili, sem er einfaldlega rangt. Það kom aldrei nokkurn tíma fram í umræðum um kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og aldrei var annað gefið í skyn en að það sem kallað var leiðrétting upp á nokkur hundruð milljarða króna kæmi óskipt til greiðslu inn á reikning íslenskra heimila, eins og það hefur verið kallað. Hafi það komið einhvers staðar fram kom það a.m.k. ekki fram í hópi frambjóðenda Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Það kom í það minnsta einum þingmanni Framsóknarflokksins eftir kosningar mjög á óvart að draga ætti frá fyrri aðgerðir ríkisstjórnar, svo mjög reyndar að hún táraðist yfir því á þingflokksfundi Framsóknarflokksins þegar það lá ljóst fyrir. Því var aldrei lofað og um það var aldrei rætt að draga ætti frá einhverjar aðgerðir fyrri ríkisstjórnar heldur átti þetta að koma allt saman óskipt, þau hundruð milljarða sem lofað var inn á reikning íslenskra heimila.

Það kom líka margsinnis fram í kosningabaráttunni að ekki væri verið að tala um 80 milljarða eða 40 eða 70, heldur hundruð milljarða króna. Þetta má meðal annars sjá á skrifum núverandi hæstv. forsætisráðherra á heimasíðu hans, sem er ansi gaman að renna yfir í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Þar skrifar hæstv. forsætisráðherra í apríl 2013, með leyfi forseta:

„Næsta ríkisstjórn þarf að nýta það einstaka tækifæri sem felst í uppgjöri gömlu bankanna og afnámi gjaldeyrishafta til að rétta hlut skuldsettra heimila.“

Hann heldur áfram og bendir á að talsmaður hóps sem hélt úti og heldur úti vefsíðunni snjohengja.is hafi bent á að þarna gæti verið um 800 milljarða kr. að ræða sem mætti þá nota í þessum tilgangi og hæstv. forsætisráðherra segir, þegar hann tekur undir þessa skoðun vefsíðunnar um 800 milljarðana:

„Það er a.m.k. ljóst að um leið og leifar efnahagshrunsins verða gerðar upp mun gefast tækifæri til að koma til móts við heimilin og gera aðrar ráðstafanir til að rétta stöðu íslensks samfélags.“

Þarna eru við komin í 800 milljarða kr.

Hæstv. núverandi forsætisráðherra skrifaði sem frambjóðandi fyrir kosningarnar 2013 talsvert um þessi mál og segir m.a. í einum pistli sínum, með leyfi virðulegs forseta:

„Neyðarlögin vörðu eignir. Þá spurðu fáir hvaða sanngirni væri í því að ráðstafa fjármagni úr þrotabúunum til að verja eignir á meðan að þeir sem áttu ekkert, eða voru skuldsettir og áttu minna en ekkert, fengu ekki neitt.“

Svo getum við rætt um það hverjir fá þá út úr því sem nú er kölluð leiðrétting eða millifærsla upp á 10% af því sem talað var um í kosningabaráttunni, þ.e. 80 milljarða. Hvernig getur leiðrétting verið föst upphæð? Hvernig getur leiðrétting verið 10 milljarðar eða 80 milljarðar? Er hún ekki breytileg upphæð eftir því hvað á að leiðrétta, eins og kom fram í umræðunni áðan? Nei, það á að stilla hana af við ákveðna tölu sem þýðir einfaldlega að það á ekki að fara að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut. Það hefur komið fram í þessari umræðu í þinginu, bæði í dag og á undanförnum mánuðum, hvert þungi þessarar millifærslu fer, hann fer til þeirra tekjuhæstu en ekki til hinna sem þegar hafa fengið úrlausn mála sinna, sem þegar hafa notið aðgerða fyrri stjórnvalda og sem uppfylla ekki skilyrðin til að geta sótt sér peninga í ríkissjóð sem nú stendur til að fara að ráðstafa.

Hrunið, afleiðingar hrunsins, verðbólgan, breytingar á lánunum, skuldir ríkissjóðs, þær höfðu ekki aðeins áhrif á rekstur heimila. Þær höfðu ekki aðeins áhrif á beinan rekstur heimila, afborganir lána o.s.frv., þær höfðu líka áhrif á rekstur ríkissjóðs og rekstur ríkissjóðs snýst um að reka menntastofnanir, hann snýst um að reka heilbrigðisþjónustu, sjúkrahús, að viðhalda vegum, byggja nýja vegi o.s.frv. Það eru ekki skilyrði fyrir því að skattleggja þrotabú gamalla banka og fallinna, innheimta þeirra er ekki skilyrt því hvernig á að ráðstafa peningunum. Það er óskynsamlegt að ráðstafa þeim fjármunum með þeim hætti sem lagt hefur verið til og þetta mál meðal annars fjallar um vegna þess að áhrifin voru miklu víðtækari á heimilin í landinu og í gegnum það áhrifin á ríkissjóð, sem á í erfiðleikum með að halda úti eðlilegum rekstri.

Ég er sérstakur áhugamaður um það sem hæstv. forsætisráðherra lætur frá sér og það er hægt að vitna vel og lengi í það sem hann sagði í aðdraganda síðustu kosninga og eftir það varðandi þetta mál þar sem hvergi, í raun og veru, stendur steinn yfir steini þegar á hólminn er komið.

Millifærslan stóra, 80 milljarða kr. millifærslan, brúttó, svo er eftir að draga frá allan kostnað og slíkt, er ekki ætluð til leiðréttingar heldur fyrst og fremst ætluð til útgreiðslu á peningum — til hverra? Til fjármálastofnana, þeirra sem lánuðu fólki peninga, því að hvar enda þessir peningar? Jú, þeir enda hjá fjármálastofnunum, þeir enda hjá bönkunum, þeir enda hjá Íbúðalánasjóði, þeir enda hjá þeim stofnunum sem lánuðu peninga til fasteignakaupa, skiljanlega, það á að lækka skuldirnar og skuldirnar eru útlán og eignir fjármálastofnananna, sem er kannski ástæðan fyrir því hversu hljóðlega þeir fóru í gegnum umræðuna hér meðan hún átti sér stað varðandi þessa millifærslu síðasta vetur og mótmæltu ekki mikið og höfðu ekki uppi mikla háreysti á þeim tíma hið minnsta. Það vekur sömuleiðis athygli í þessu frumvarpi, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt og hefur komið fram áður, að þar segir, með leyfi forseta:

„Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við verkefnisstjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunar en í honum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóði og ríkisskattstjóra auk fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.“

Það er að segja fulltrúa fjármálastofnana sem eru að fá peningana greidda til sín, hvort sem það eru bankarnir eða lífeyrissjóðirnir, það eru þeir sem eru í samráðshópnum sem eru til ráðgjafar við samningu þessa frumvarps og hvernig peningarnir verði greiddir út. Það má spyrja: Hvar eru fulltrúar neytenda, hvar eru fulltrúar skuldara þarna inni og hvaða samráð hefur verið haft við þá varðandi þetta mál? Það kemur a.m.k. ekki fram í þessu.

Frumvarpið sjálft er, eins og fram hefur komið, ekki umfangsmikið eða efnismikið í umfanginu. Það er samt rétt að fara yfir nokkur atriði í því sem mér finnst vera óskýr. Það var nefnt fyrr í umræðunni varðandi skilgreiningar á því hvað er almennt skuldalækkunarúrræði einstakra lánastofnana hvort það er þá almennt bundið við einstaka lánastofnun eða almennt bundið við fjölda skuldara. Þetta þarfnast allt frekari útskýringar og ég ætla ekki að eyða tíma í það.

Það segir í athugasemdum með frumvarpinu að í einhverjum tilvikum kunni að mega halda því fram að lögin séu óskýr. Þetta er ekki beint traustvekjandi, að í einhverjum tilvikum kunni að mega halda því fram. Hvaða tilvik eru það sem menn kunna að halda því fram að eitthvað sé ekki eins og það á að vera? Má halda því fram? Er einhver óvissa um það og í hvaða tilvikum er það þá? Það er ekki útskýrt frekar.

Á sömu blaðsíðu segir, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er þó að halda því til haga að tilvísunin til bráðabirgðaákvæðisins hefur ekki rýmri tilvísun hvað varðar undanþágu frá skattskyldu eftirgjafar veðskulda en varðar úrræði sambærileg þeim sem falla undir aðra stafliði ákvæðis 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og er til að mynda ekki ætlað að taka til eftirgjafar á skuldum vegna bílasamninga, sem ekki væru bundnar fasteignaveðum.“

—„… og er til að mynda ekki ætlað að taka til eftirgjafar á skuldum vegna bílasamninga, sem ekki væru bundnar fasteignaveðum.“ — Ég verð að klóra mér aðeins yfir þessu. Ég held að meiningin sé sú að lán vegna bílasamninga falli ekki undir þessi úrræði. Það má hins vegar auðveldlega draga þá ályktun að þegar sagt er að þessari aðgerð sé ekki ætlað að taka til eftirgjafar á skuldum vegna bílasamninga sem ekki eru bundnar fasteignaveðum þýði það að hún muni hún taka til bílasamninga sem bundnir eru fasteignaveðum, eða hvað? Það væri þá hægt að greiða niður eða fella inn í þessar skuldir bílasamninga sem bundnir eru fasteignaveðum. Ég reikna með að meiningin sé önnur, en þetta er hins vegar afar óskýrt í þessum texta og verður vonandi skýrt frekar í meðferð nefndarinnar þegar að því kemur.

Það kemur sömuleiðis fram í frumvarpinu hvert markmið frumvarpsins er og að líklegt sé að það muni stuðla að færri ágreiningsmálum vegna frádráttarliða, að það sé líklegt en engan veginn tryggt. Það segir í umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við frumvarpið að telja megi að frumvarpið geti stuðlað að færri ágreiningsmálum. Þetta er engan veginn víst, engin trygging fyrir því að þetta muni stuðla að færri ágreiningsmálum en þó stefnir í, og þau eru að mér skilst ansi mörg.

Í stuttu máli, ef maður mundi draga saman umræðu um skuldamál heimila og aðgerðir fyrri ríkisstjórnar eða á síðasta kjörtímabili í nokkrar setningar, eina setningu, mætti orða hana einhvern veginn þannig að það hafi akkúrat ekkert verið gert fyrir heimilin í landinu og tími til kominn að það sé gert. Þetta frumvarp snýst hins vegar um að reyna að koma í veg fyrir að þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili nái inn í þessa millifærslu hér upp á 80 milljarða og reyna að undanskilja það allt frá.

Það sem mér finnst vanta í þetta frumvarp og sérstaklega við skýringarnar á því er: Um hvað erum við að tala? Hvað er það mikið sem er undanskilið? Hversu há er upphæðin í 110%-leiðinni? Hvað með biðreikningana sem sumar fjármálastofnanir voru meira að segja búnar að ákveða og samþykkja að afskrifa að hluta eftir einhver ár, en nú á að greiða upp? Hversu mikið af þessu eru dráttarvextir sem á að draga hérna frá? Hvað mikið eru vanskil sem á að draga hérna frá? Hvað er þetta há upphæð sem á að koma til frádráttar þeim aðgerðum sem falla undir stóru millifærsluna, 80 milljarðana, og rekja má til aðgerða stjórnvalda síðasta kjörtímabils, sem sumir þingmenn stjórnarliða held ég, þó að fáir hafi verið, hafi nú einhvern tíma stutt?

Í stuttu máli snýst þetta frumvarp um að verið er að reka negluna fastar í skútuna og tjarga botninn á því hripleka fleyi sem lagt var upp með í þessum aðgerðum, sem þó átti að sigla seglum þöndum fegurst allra fleyja um hafið.

Ég vonast til þess að þetta mál fái góða og ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins og kallað verði eftir þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram við umræðuna, og ekki síst um það hversu háar upphæðir er um að ræða, hvað komi til frádráttar sem ekki var sagt frá í kosningabaráttunni og var þannig óbeint lofað að ekki yrði tekið tillit til þegar farið væri að greiða út 800 milljarðana, (Forseti hringir.) sem enduðu í 80.