144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkefni verkefnisstjórnarinnar er gríðarlega umfangsmikið. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að hún hafi öll verkfæri tiltæk sem hægt er til að sinna vinnunni. Eitt verkefnið er beinlínis lögbundið; hún þarf að geta mannað þessa faghópa. Mér finnst eðlilegt að menn greini frá því ef einhver dráttur hefur verið á því að verkefnisstjórnin hafi getað gert það því að lögum samkvæmt ber henni að gera það. Það er því eðlilegt að hún skýri hvers vegna svo hefur verið. Mig undrar ekki að okkur í þinginu hafi verið greint frá því vegna þess að við setjum lögin.

Það sem ég hefði líka viljað nefna hérna, virðulegi forseti — ég næ því ekki á þeim sjö sekúndum sem eftir eru þannig að ég ætla að geyma það þangað til ég held ræðu.

Mér finnst fullkomlega eðlilegt að verkefnisstjórnin hafi greint þinginu frá málavöxtum vegna þess að forsendan fyrir því að hún geti starfað af fullum krafti er (Forseti hringir.) að ná að manna (Forseti hringir.) alla þessa faghópa og undirhópa.