144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega væri hægt að fara fram á óendanlegar rannsóknir. Þegar við ræðum þær framkvæmdir sem hér eru til umræðu hafa athugasemdir við þær fyrst og fremst snúist um laxastofninn í Þjórsá og hvernig viðhalda megi honum. Mér finnst því rétt að spyrja hæstv. ráðherra og vil kannski skýra spurningu mína betur: Hefur Landsvirkjun metið það hvaða áhrif hugsanlegar mótvægisaðgerðir muni hafa á arðsemi allra þessara virkjana? Liggur það fyrir og er búið að taka þá efnahagslegu breytu inn í mat verkefnisstjórnarinnar? Það er það sem kemur fram í þessari bókun, þ.e. að dregið er í efa að það mat liggi fyrir, sem er ekki umhverfismat heldur mat á efnahagslegum áhrifum virkjunarinnar.

Annað sem langar að spyrja hæstv. ráðherra um, af því að hér skapaðist talsverð umræða um veiðiréttarhafa síðast þegar við ræddum þetta mál: Er búið að ræða þessi mál á nýjan leik við veiðiréttarhafa? Það kom fram í umsögnum síðast að það hefði ekki verið gert. Hefur sumarið verið nýtt til þess að ræða við veiðiréttarhafa við Þjórsá?