144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hversu mikið tillit er tekið til þeirra íbúa sem búa næst virkjunarkostum þá held ég að það sé gert fyrst og fremst með því að koma til móts við þá við hönnun mannvirkjanna, í viðræðum og að lokum í samningum við þá sem verða hreinlega fyrir tjóni af völdum viðkomandi virkjunar, hugsanlega vegna þess að landsvæði þeirra fer þar undir eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé ekki neitt vafamál. Síðan eru sjónarmið fólks sem býr á svæðinu auðvitað mismunandi.

Eitt af því sem rammaáætlun á meðal annars að taka tillit til, alveg eins og í sjálfbærni, eru samfélagsleg og hagfræðileg viðmið. Það er einfaldlega þannig að mjög margir aðilar hafa óskað eftir því að kaupa orku af Íslendingum og setja hér upp starfsemi sem er tengd orku. Það er því ekki vandkvæðum bundið að koma orkunni í verð. Stöðugur fjöldi aðila sækist eftir viðræðum við Íslendinga um að kaupa orku eins og við höfum séð á liðnum missirum. Viljayfirlýsingar og fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir við fjölmarga aðila þannig að það er ekki vandamál.