144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að gera athugasemd við þá tillögu hæstv. ráðherra að vísa þessari þingsályktunartillögu til hv. atvinnuveganefndar en ekki hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þetta var líka lagt til þegar við ræddum sambærilega tillögu í vor og þá leit ég hreinlega svo á að um misskilning væri að ræða því að lög um rammaáætlun, sem og síðasta rammaáætlun sem var samþykkt hér, voru á forræði hv. umhverfis- og samgöngunefndar enda hefur málaflokkurinn núna verið færður yfir til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Mér finnst skjóta skökku við, þó að það standi að nýting auðlinda heyri að einhverju leyti undir atvinnuveganefnd, að við séum að raða upp kostum hverjum á móti öðrum. Með því rífum við í sundur þá heildstæðu sýn sem á að vera grundvöllurinn fyrir rammaáætlun, að fjalla um vernd og nýtingu um leið.

Hvernig ætlum við að fara að ef við ætlum að færa kost úr biðflokki yfir í vernd, ætlum við þá að taka þann hluta rammaáætlunar og færa hann yfir í umhverfis- og samgöngunefnd? (Forseti hringir.) Með þessu er grafið undan þeirri heildstæðu sýn sem á að einkenna aðferðafræðina á bak við rammaáætlun (Forseti hringir.) og ég geri verulegar athugasemdir við það, virðulegi forseti, að Alþingi ætli að ganga svona frá málinu.