144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki að það þurfi að koma mönnum á óvart að hæstv. ráðherra vísi málinu til hv. atvinnuveganefndar. Það lá algjörlega fyrir á síðasta kjörtímabili þegar rammaáætlun var til umfjöllunar. Við gerðum alvarlegar athugasemdir við þá breytingu sem þá var gerð í eitt skipti, að færa þennan málaflokk frá atvinnuveganefnd, iðnaðarnefnd eins og hún hét þá, til umhverfis- og samgöngunefndar. Við gerðum alvarlegar athugasemdir við það. Við erum því fyrst og fremst að fylgja eftir þeirri skoðun okkar að þessi málaflokkur eigi heima þar eins og hann hefur alltaf gert þar til við síðustu umfjöllun. Að halda því síðan fram að meiri þekking og reynsla sé innan umhverfisnefndar til að fjalla um þessi mál en innan atvinnuveganefndar — ég blæs bara á slík rök. Hvar er sú þekking og reynsla umfram þá sem er til í atvinnuveganefnd? Eru ekki allir flokkar þar með fulltrúa eins og í hinni nefndinni? Er það ekki bara alveg ágætt fólk sem þar hefur ágætisþekkingu á þessum (Forseti hringir.) málaflokki? Eina skiptið sem hefur verið fjallað um þetta á öðrum vettvangi í nefndum þingsins er við síðustu rammaáætlun.