144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vissulega er rétt að talað er um nýtingu þegar rætt er um hlutverk atvinnuveganefndar. Ég get líka nefnt að byggðamál eru talin til hlutverka umhverfis- og samgöngunefndar en eigi að síður fór byggðaáætlun til atvinnuveganefndar í fyrravetur af því að þingið ákvað það. Þingið getur í raun og veru ákveðið að vísa málinu hvert sem er, það er alveg hárrétt, en það sem ég var að benda á í þessum umræðum er að rammaáætlun byggist á því að við horfum á allt ferlið heildstætt. Ég tel þingið komið í miklar ógöngur. Því hefur nefnilega ekki enn verið svarað hvað við gerum ef við ætlum að færa einhvern kost úr biðflokki yfir í verndarflokk. Ætlum við þá að vísa því til umhverfisnefndar? Ætlum við að tæta upp málið þannig að hvergi sé heildarsýn yfir það hvernig við röðum þessum kostum niður? Býr eitthvað annað að baki? (Gripið fram í.)

Þetta snýst um að málið hefur verið á forræði hv. umhverfisnefndar og var þar til umfjöllunar síðasta vetur, ekki bara á síðasta kjörtímabili heldur var hv. umhverfisnefnd, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna, að undirbúa sig fyrir umfjöllun um rammaáætlun. Þetta kom því nefndarmönnum (Forseti hringir.) þar að sjálfsögðu mjög á óvart. Ef við ætlum að fara að rífa þetta í sundur erum við lent í miklum ógöngum. (Forseti hringir.) Þetta býður ekki upp á góða stjórnsýslu, virðulegur forseti.