144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Var það vantraust hjá meiri hlutanum á síðasta kjörtímabili að taka þetta mál úr umfjöllun í iðnaðarnefnd eða atvinnuveganefnd og setja til umhverfisnefndar? Var það vantraust gagnvart þáverandi stjórn og formanni í atvinnuveganefnd?

Það er alveg hægt að snúa þessari spurningu við. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki, er kallað hér. Þá skulum við taka það af borðinu að hér sé eitthvað slíkt á ferðinni.

Hér er verið að tala um að málið sé tætt upp og það sé verið að gera eitthvað svona og svona. Hvað er með Hafrannsóknastofnun og ákvörðun um veiðar og verndun fiskstofna? Á það þá ekki að fara á sömu forsendum til umhverfisnefndar? Á það eitthvað heima í atvinnuveganefnd þar sem við fjöllum um það hvernig við með sjálfbærum hætti nýtum fiskstofna okkar í sjónum?

Hvað með landbúnaðinn? Af hverju fóru áburðarmálin til atvinnuveganefndar? Af hverju fór það ekki í umhverfisnefnd? Er áburður sem við berum á túnin og óræktað land ekki umhverfismál? (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta hefur einfaldlega verið svona. Gerð var breyting hér á síðasta kjörtímabili sem við lýstum mikilli andstöðu við og það er bara eðlilegt að við ætlum að færa þetta til þess vegar sem þetta hefur alltaf verið í.